Pistlar

1
/9

Um fimmtungur íslenskra einkaleyfisumsókna tengist sjávarútvegi

Pétur Vilhjálmsson

Sviðsstjóri

Þegar íslenskar umsóknir um einkaleyfi eru greindar eftir tæknisviðum kemur fljótt í ljós að íslenskur sjávarútvegur og afleiddur iðnaður skipar stóran sess, en rúmlega fimmtungur íslenskra einkaleyfisumsókna á árunum 2010-2020 tengist sjávarútvegi. Þetta kemur fram í greiningu Hugverkastofunnar og Nordic Patent Institute (NPI) sem gerð var í lok árs 2020.


Helstu niðurstöður greiningarinnar eru eftirfarandi:

  • Rúmlega fimmtungur íslenskra einkaleyfisumsókna á árunum 2010-2020 tengist sjávarútvegi.
  • Frá 2010 hefur samtals 31 íslenskur aðili sótt um einkaleyfi hér á landi tengd sjávarútvegi og þar af hafa 9 aðilar sótt um oftar en tvisvar.
  • Yfir helmingur íslenskra einkaleyfa sem eru í gildi hér á landi tengist sjávarútvegi.
  • Íslenskir eigendur sjávarútvegstengdra einkaleyfa eru samtals 21 en aðeins 5 þeirra eiga fleiri en tvö einkaleyfi.
  • Aðeins þýsk fyrirtæki eiga fleiri sjávarútvegstengd einkaleyfi hér á landi en íslenskir aðilar.
  • Efni umsókna hefur breyst á allra síðustu árum. Uppfinningar tengdar veiðum og vinnslu eru enn stærstur hluti en afleiddar afurðir og fiskeldi eru áberandi efni nýrra umsókna.
  • Umfang íslenskra umsókna erlendis er í góðu jafnvægi við umsóknir hér á landi, bæði hvað varðar fjölda og efni umsókna.


Hugverkastofan naut liðsinnis sérfræðinga Nordic Patent Institute (NPI) við greininguna, en NPI lagði til þá tækniflokka sem leitin náði til og framkvæmdi hana í erlendum gagnagrunnum. Hugverkastofan vann sambærilega greiningu á umsóknum og einkaleyfum sem til eru í gagnagrunnum stofnunarinnar.

Umsóknir 2010-2020

Hugverkastofan hefur tekið á móti samtals 492 íslenskum umsóknum um einkaleyfi frá ársbyrjun 2010. Af þessum umsóknum eru 105 tengdar sjávarútvegi, eða um 21%. Umsóknir á sviði veiða og vinnslu eru áberandi algengastar á þessu tímabili en umsóknir um einkaleyfi á afleiddum afurðum og uppfinningum tengdum fiskeldi eru meira áberandi á allra síðustu árum. Af þessum 105 umsóknum hafa einungis níu orðið að einkaleyfum hér á landi með beinum hætti, en töluverður fjöldi til viðbótar hefur orðið að einkaleyfum hér sem staðfest evrópsk einkaleyfi.

Einkaleyfi á Íslandi

Heildarfjöldi einkaleyfa sem eru í gildi á Íslandi er nú um 8.750. Þar af eru 93 í eigu íslenskra aðila. Af íslenskum einkaleyfum eru 52 tengd sjávarútvegi, eða 56%. Þá eru samtals 231 einkaleyfi tengd sjávarútvegi í gildi hér á landi og þau íslensku þannig um 23%. Flest sjávarútvegstengd einkaleyfi hér á landi eru í eigu þýskra aðila en Ísland er í öðru sæti.

Þegar sjávarútvegstengd einkaleyfi sem eru í gildi hér á landi eru skoðuð út frá útgáfuári sést að mikill meirihluti einkaleyfanna var veittur hér á landi á síðustu fimm árum og á það bæði við um íslensku og erlendu einkaleyfin. Þessi mynd er ekki ýkja ólík þeirri mynd sem birtist þegar litið er til einkaleyfa almennt þar sem þeim þarf að viðhalda ár hvert og með árunum fækkar þeim einkaleyfum sem haldið er við.


Eðli einkaleyfa sem tengjast sjávarútvegi hefur breyst umtalsvert á síðustu árum. Í eldri einkaleyfum eru veiðar og vinnsla mjög áberandi en um 40% yngstu einkaleyfanna eru nú á sviði fiskeldis og afleiddra afurða.


Eigendur umsókna og einkaleyfa

Eins og áður kom fram hafa íslenskir aðilar lagt inn 105 umsóknir tengdar sjávarútvegi frá 2010. Aðeins 50 af þessum umsóknum hafa verið birtar og því getur Hugverkastofan ekki gert grein fyrir nafni umsækjanda 55 umsókna. Í neðangreindri töflu er að finna nöfn þeirra aðila sem eiga einkaleyfi tengd sjávarútvegi hér á landi og fjölda einkaleyfa í þeirra eigu. Auk þess er í töflunni listi yfir fjölda birtra umsókna í eigu sömu aðila og annarra sem ekki hafa fengið einkaleyfi á sínum uppfinningum hér.


Íslenskar umsóknir og einkaleyfi erlendis

Frá árinu 2010 hafa íslensk fyrirtæki lagt inn að minnsta kosti 124 umsóknir um einkaleyfi tengdar sjávarútvegi erlendis og vísað til fyrrgreindra íslenskra grunnumsókna (forgangsréttur). Áberandi stærstur hluti umsóknanna á þessu tímabili er á sviði veiða og vinnslu en fiskeldi og afleiddar afurðir eru umtalsverður og vaxandi hluti. Að því leyti ríma tölurnar vel við íslenskar umsóknartölur, sem áður hefur verið gerð grein fyrir.


Heildarleit að einkaleyfaskjölum (fjölskyldum/e. families) á heimsvísu, án tillits til umsóknarárs, sýnir að íslensk fyrirtæki hafa í gegnum tíðina sótt í mestum mæli um á helstu markaðssvæðum Íslands, þ.e. í Bandaríkjunum og Evrópu, en auk þess hafa íslenskar umsóknir ratað í miklum mæli til m.a. Ástralíu og Kanada.

Fyrri

Tæknisvið einkaleyfa – lykillinn að IPC-flokkunarkerfinu

Næst

Four Seasons, vörumerki og ruglingshætta