Ársskýrsla
2019

Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar

Ávarp forstjóra

Þetta eru óvenjulegir tímar. Um þessar mundir stendur heimsbyggðin frammi fyrir óvæntri áskorun þar sem COVID-19 heimsfaraldurinn hefur hægt verulega á hjólum efnahagslífsins og lamað heilu samfélögin.

Stór hluti þjóðarinnar og heimsins alls sinnir nú fjarvinnu og er Hugverkastofan meðal þeirra vinnustaða sem gat flutt starfsemi sína í fjarvinnu á nánast einni nóttu. Á stuttum tíma náðum við að undirbúa okkur fyrir þessar miklu breytingar, m.a. með því að nýta okkur fjarfundaleiðir og aðrar rafrænar samskiptalausnir. Starfsfólk Hugverkastofunnar hefur tekist á við þessar aðstæður með jákvæðni og af drifkrafti, ásamt því að sýna mikla þrautseigju og sveigjanleika í þessum nýju aðstæðum.
Lesa meira

Nafnbreytingin

Þann 1. júlí 2019 breyttist heiti Einkaleyfastofunnar, sem heitir nú Hugverkastofan. Breytingin markaði tímamót í starfsemi stofnunarinnar og mun gera henni betur kleift að styðja við íslenskan iðnað, nýsköpun og rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Merki Hugverkastofunnar í dag
Merki Einkaleyfastofunnar í gegnum tíðina

Af hverju að skipta um nafn?

Nafnbreytingunni var fyrst og fremst ætlað að koma til móts við þarfir íslensks iðnaðar og viðskiptalífs. Nýtt heiti gefur skýrari mynd af starfsemi stofnunarinnar en fyrra heitið, Einkaleyfastofan, vísaði eingöngu til einnar tegundar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar og var þannig mjög þröng skírskotun miðað við raunverulega starfsemi stofnunarinnar. Heitið gat verið villandi í augum viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila og gaf til kynna að stofnunin léti sig aðeins varða málefni einkaleyfa þrátt fyrir að starfsemi hennar og ábyrgðarsvið tengdist hugverkaréttindum almennt. Mikilvægt er að tryggja að öllum fagsviðum sé gert jafn hátt undir höfði og að í heiti komi ekki fram sérstök áhersla á eitt fagsvið umfram annað.

Breytingin er í takt við þróun erlendis en þar er í auknum mæli horft heildstætt á hugverk og hugverkaréttindi og þau verðmæti sem í þeim felast. Á síðustu árum hafa einmitt nokkrar einkaleyfa- og vörumerkjastofur breytt um heiti og eru í dag hugverkastofur. Má þar nefna sem dæmi hugverkastofur Evrópusambandsins (EUIPO), Bretlands (UKIPO), Ástralíu (IP Australia), Ungverjalands (HIPO), Írlands (IPOI) og Svíþjóðar.

Breytingin er eitt þeirra verkefna sem skilgreind eru í Hugverkastefnu fyrir Ísland árin 2016 – 2022 og er þar með ein af þeim aðgerðum sem miðar að því að styrkja umgjörð og lagaumhverfi um hugverkaréttindi hér á landi.

Nýtt heiti er einnig í takt við stefnu Einkaleyfastofunnar fyrir árin 2018 – 2021, en hún var afrakstur greiningar á umhverfi stofnunarinnar og samráðs við helstu hagsmunaaðila þar sem möguleg nafnbreyting var meðal annars rædd.

Algengar spurningar

Hvað fól breytingin í sér?

Lögin um nýtt heiti Einkaleyfastofunnar tóku gildi þann 1. júlí 2019. Þá var heiti Einkaleyfastofunnar breytt í Hugverkastofan í þeim lögum sem stofnunin starfar eftir og öðrum lögum þar sem vísað er til hennar. Markmið frumvarpsins var að breyta heiti stofnunarinnar þannig að heitið endurspegli betur eiginlega starfsemi hennar.

Hvað breyttist?

Lögin tóku aðeins til nafns stofnunarinnar og höfðu ekki áhrif á hlutverk eða starfsemi hennar að öðru leyti. Hinsvegar hafði nafnbreytingin áhrif á rafræn samskipti stofnunarinnar og var netföngum starfsmanna breytt í nafn@hugverk.is. Gömlu netföngin, nafn@els.is og nafn@einkaleyfastofan.is, munu áfram vera virk í einhvern tíma eftir breytinguna. Á sama tíma opnaði stofnunin opna nýja heimasíðu. Önnur rafræn kerfi og samfélagsmiðlareikningar stofnunarinnar voru einnig uppfærðir í takt við nafnbreytinguna. Gamla lén stofnunarinnar, www.els.is, vísar sjálfkrafa notendum á nýtt lén Hugverkastofunnar, www.hugverk.is.

Hvað breyttist ekki?

Hlutverk og starfsemi stofnunarinnar hélst óbreytt. Heimilisfang
og símanúmer stofnunarinnar en enn það sama.

Hvað með skráðu hugverkin mín og/eða umsóknina mína?

Breytingarnar höfðu ekki áhrif á skráð vörumerki, hönnun eða einkaleyfi. Breytingarnar höfðu heldur ekki hafa nein áhrif á umsóknir, umsóknarferli eða önnur réttindi.

Eru heimasíða og önnur kerfi Hugverkastofunnar þau sömu og Einkaleyfastofunnar?

Ný heimasíða Hugverkastofunnar var opnuð á sama tíma og lögin um breytt heiti tóku gildi. Lén Hugverkastofunnar er www.hugverk.is en gömlu lén Einkaleyfastofunnar, www.els.is og www.einkaleyfastofan.is, vísa á nýja lénið. Að sama skapi breyttust netföng starfsfólks úr nafn@els.is og nafn@einkaleyfastofan.is í nafn@hugverk.is. Gömlu netföngin eru þó enn virk í einhvern tíma.

Mun höfundarréttur heyra undir Hugverkastofuna?

Nei, höfundaréttur heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hins vegar geta fyrirtæki sótt sér grunnfræðslu um öll hugverkaréttindi hjá Hugverkastofunni og þau verðmæti sem felast í hugverkum, þ.á.m. höfundarétti, ekki síst þar sem réttindi til vörumerkja, einkaleyfa og hönnunar geta skarast við höfundarétt.

Hvað kallast stofnunin á ensku?

Hugverkastofan er kölluð Icelandic Intellectual Property Office og notast við skammstöfunina ISIPO í takt við aðrar hugverkastofur og alþjóðastofnanir á sviði hugverkaréttinda.

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna heitis Einkaleyfastofunnar (nafnbreyting á stofnuninni)

Sjá mál á vef Alþingis: https://www.althingi.is

Starfsemi og hlutverk

Í lok ársins 2019 var starfsmannafjöldi Hugverkastofunnar 38. Þar af voru fjórir í leyfi vegna fæðingarorlofs og náms. Þá starfaði einn starfsmaður Hugverkastofunnar hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) sem sérfræðingur sem lánaður er til starfa.

Hugverkasvið

Á hugverkasviði fer fram formleg og efnisleg meðferð umsókna um skráningu vörumerkja, einkaleyfa og hönnunar. Á sviðinu eru teknar ákvarðanir um skráningu eða höfnun eftir atvikum og sinna lögfræðingar sviðsins rökstuðningi í þeim tilvikum þegar umsóknum er hafnað. Leyst er úr andmæla- og niðurfellingarmálum á sviðinu, auk þess sem beiðnum um endurveitingu réttinda er sinnt. Þá tekur sviðið á móti umsóknum um viðhald réttinda, þ.e. greiðslu árgjalda af einkaleyfum og endurnýjun hönnunar- og vörumerkjaskráninga, auk þess að sinna beiðnum um aðilaskipti, veðsetningu skráninga og fleira. Á árinu 2020 tók sviðið ríflega 13.000 umsóknir og önnur erindi til skoðunar.

Rekstrarsvið

Verkefni rekstrarsviðs eru af fjölbreyttum toga. Má þar nefna móttöku erinda, þjónustu og ráðgjöf við viðskiptavini, fræðslu- og kynningarmál, útgáfu ELS-tíðinda og samskipti  í tengslum við alþjóðleg samstarfsverkefni. Á sviðinu er einnig haldið utan um mannauðsmál, upplýsingatækni, kerfisstjórn, skjalastjórn, innkaup, launavinnslu, fjármál og áætlanagerð. Á árinu 2019 var áhersla lögð á áframhaldandi uppbyggingu á þjónustu stofnunarinnar í samræmi við stefnu Hugverkastofunnar.

Faggildingarsvið

ISAC, faggildingarsvið Hugverkastofunnar, er hin opinbera faggildingarstofa á Íslandi og starfar sjálfstætt innan stofnunarinnar. Á sviðinu starfa tveir starfsmenn sem sjá um daglegan og faglegan rekstur sviðsins. Við framkvæmd faggildingarmats og/eða faggildingareftirlits ræður sviðið til sín tæknilega matsmenn eða sérfræðinga til aðstoðar við mat á samræmi við tæknilegar kröfur. Faggildingarsvið leggur sig fram við að bjóða viðskiptavinum sínum góða þjónustu, taka þátt í nauðsynlegu alþjóðlegu samstarfi og efla samstarf milli hagsmunaðila faggildingar sem geta ýmist verið eigendur krafna, samræmismatsstofur eða notendur þjónustunnar, svo eitthvað sé nefnt.

Þjónusta Hugverkastofunnar

Á árinu 2020 varhaldið áfram með ýmsar aðgerðir í að byggja upp og bæta þjónustu með nýjustu tækni og þarfir viðskiptavina að leiðarljósi. Aðgerðirnar eru í takt við stefnu stofnunarinnar fyrir árin 2018-2021, en þær miða að því að auka fagmennsku ogsýnileika, bæta rafræna upplifun og innleiða nýjar og bættar þjónustuleiðir. Þetta kom sér vel þegar heimsfaraldur skall á í byrjun árs og loka þurfti móttökunni.  Nýjar og bættar þjónustuleiðir gerðu okkur mögulegt að halda óbreyttu þjónustustigi og áframhaldandi góðum samskiptum við viðskiptavini.

Aukin fagmennska og sýnileiki

Nýtt þjónustuteymi var sett á laggirnar á vormánuðum sem liður í því að auka fagmennsku og að samræma innri þekkingu. Til að auka sýnileika og miðla þekkingu og fræðslu um hugverkaréttindi var lögð aukinn áhersla á notkun samfélagsmiðla. Liður í því var opnun Instagram-síðu Hugverkastofunnar.

Aukin góð rafræn upplifun

Netspjall var innleitt í kjölfarið á opnun nýrrar heimasíðu og hefur sú þjónusta fengið jákvæð viðbrögð. Einnig er nú hægt að bóka símtal frá sérfræðingi, heimsókn á Engjateig og fjarfund í gegnum heimasíðuna. Auk þess er hægt að panta samtalsleit einkaleyfa og samanburðarleit fyrir vörumerki í gegnum heimasíðuna. Nýjar þjónustuleiðir eru sífellt í mótun og endurskoðun.

Gæðavottun og gæðakerfi

Allt frá árinu 2013 hefur Hugverkastofan haft vottað gæðakerfi samkvæmt ISO 9001 staðlinum, en þýska vottunarstofan DQS hefur annast úttektir á kerfinu. ISO 9001 staðalinn fjallar m.a. um ábyrgð stjórnenda, stjórnun auðlinda, uppbyggingu ferla vegna framleiðslu og þjónustu, mælingar á starfsemi og hvernig frávik eru greind, til þess að stuðla að sífelldum umbótum.

Einn meginþáttur staðalsins snýr að því að hlusta á þarfir viðskiptavina og laga starfsemina að óskum þeirra eins og mögulegt er. Gæðakerfi Hugverkastofunnar nær yfir meðferð erinda og þjónustu við viðskiptavini, en einnig stjórnun, umsýslu fjármála og mannauðsmál.

Stefnumiðaðar mælingar eru innbyggðar í gæðakerfið og eru niðurstöður rýndar og greindar í hringrás umbóta í anda staðalsins.

Nafnbreytingu fagnað

Þann 5. september 2019 var boðið til veislu á Kjarvalsstöðum til að fagna nafnbreytingu Hugverkastofunnar, sem tók gildi þann 1. júlí.
Fjölmargir af okkar helstu samstarfsaðilum og viðskiptavinum fögnuðu nafnbreytingunni með okkur. Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fluttu ávörp þar sem litið var stuttlega yfir 28 ára sögu Einkaleyfastofunnar, en jafnframt horft fram á veginn á mikilvægt hlutverk Hugverkastofunnar á næstu árum. Við hjá Hugverkastofunni viljum þakka þeim sem sáu sér fært að fagna með okkur og við hlökkum til þess að eiga blómlegt samstarf við ykkur á næstu árum.

Hugverk og hugverkaréttindi

Jón Gunnarsson

Hugverkaréttindi hafa jákvæð áhrif á íslenskt hagkerfi og atvinnusköpun samkvæmt nýrri skýrslu EUIPO og EPO

Íslensk fyrirtæki sem leggja mikið upp úr hugverkaréttindum standa undir 39,6% af vergri landsframleiðslu og skapa 29,2% af öllum ...
Lesa meira
Pétur Vilhjálmsson

Hugverk eru heimsins gæfa

Í óvissunni og umrótinu sem hafa einkennt heimsbyggðina síðustu mánuði felast ýmis tækifæri. Öll höfum við fylgst með því hvernig ástandið hefur kallað fram nýjar hugmyndir, flýtt fyrir margs konar þróun og kannski öðru fremur sýnt okkur hvers maðurinn er megnugur frammi fyrir bráðavanda.
Lesa meira
Dagný Fjóla Jóhannsdóttir

Íslenska sauðkindin og afurðarheiti

Feta, Camembert og íslenskt lambakjöt – allt eru þetta heiti sem við þekkjum vel. Það sem meira er, þessi heiti eru vernduð sem svokölluð ...
Lesa meira
Hanna Lillý Karlsdóttir

Stjórnsýsluleg niðurfelling senn á tímamótum - litið yfir farinn veg

Hver sá sem lögmætra hagsmuna hefur að gæta getur krafist þess, eftir að andmæla- og/eða áfrýjunarfrestir eru liðnir ...
Lesa meira
Hanna Lillý Karlsdóttir

Ekki svo stór Mac

Vörumerkjalögin leggja þá skyldu á eigendur vörumerkja að nota merki í atvinnustarfsemi sinni, ella eigi þeir á hættu að missa ...
Lesa meira
Sif Steingrímsdóttir

Hugmyndir í heimsfaraldri?

Við lifum á furðulegum tímum. Óboðinn vágestur, COVID-19, ræður ríkjum um þessar mundir. Af þeim sökum hefur okkur ...
Lesa meira
Jón Gunnarsson

Brexit og Ísland: Hvað breytist í hugverkaréttindamálum við útgöngu Breta úr EES?

Samningur vegna útgöngu Bretlands úr Evrópska efnahagssvæðinu var undirritaður af utanríkisráðherrum Noregs, Liechtenstein ...
Lesa meira
Jón Gunnarsson

Óáþreifanleg verðmæti, áþreifanlegar tekjur

Miklar breytingar hafa átt sér stað í iðnaði og viðskiptum síðustu áratugi. Í dag byggjast verðmæti og tekjur fyrirtækja í æ meira ...
Lesa meira
Jón Gunnarsson

Mýrardrekar, vatnalausir Lakers og vörumerki NBA

Vörumerkjagagnagrunnar geta veitt einstaka innsýn í stöðu markaða og nýsköpunar. Oft er sagt að slíkar upplýsingar geti leyft ...
Lesa meira
Nanna HelgaValfells

Gómsæt hugverk

Í þróuðum löndum nútímans er matur ekki einungis hugsaður sem lífsnauðsynleg næring heldur eru matvæli orðin hluti ...
Lesa meira

Faggilding

Faggilding er mat á hæfni prófunar-, skoðunar- og vottunarstofa til að meta samræmi við tæknilegar kröfur sem eru m.a. tilgreindar í reglugerðum og/eða stöðlum. Faggilding má ekki vera háð samkeppni vegna þess að hlutverk hennar er að tryggja að ekki sé vikið frá stöðlum er varða samkeppni milli aðila sem láta í té vörur og þjónustu. Faggilding er starfrækt alþjóðlega og miðar að því að vara sem faggildur aðili í einu landi prófar, skoðar eða vottar njóti jafnframt viðurkenningar í öllum löndum þar sem faggilding er starfrækt. Í Evrópu eru starfandi faggildingarstofur í meira en 40 löndum.

ISAC, faggildingarsvið Hugverkastofunnar, starfar samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. nr. 24/2006, reglugerð nr. 566/2013 um markaðseftirlit, faggildingu o.fl. og staðlinum ÍST EN ISO/IEC 17011 (Samræmismat – Almennar kröfur vegna faggildingarstofa sem faggilda samræmismatsstofur). Að auki starfar ISAC eftir kröfum og leiðbeiningum samtakanna European Accreditation, þar sem sviðið er meðlimur. European Accreditation (EA) eru samtök faggildingarstofa í Evrópu og eru sá aðili sem Evrópusambandið hefur tilnefnt til að annast samræmingu á starfsemi faggildingar í Evrópu. EA starfrækir ýmsar tækninefndir sem fulltrúar ISAC sækja fundi hjá, ásamt aðalfundum samtakanna. Faggildingarsvið er í samstarfi við SWEDAC, faggildingarstofuna í Svíþjóð, um mat á nokkrum prófunarstofum. Einnig er gott samstarf milli faggildingarsviðs og faggildingarstofa Danmerkur og Noregs og hefur sviðið aðgang að tæknilegum matsmönnum þessara stofa, sem eru m.a. sérfræðingar í ökutækjaskoðunarstofum og lyftum svo eitthvað sé nefnt.

Í lok ársins var 41 virk faggilding. Prófunarstofur voru alls fimm á sviði matvæla og lögmælifræði, ein vottunarstofa á sviði lífrænnar framleiðslu og tvær vottunarstofur sem votta stjórnunarkerfi. Þá voru 33 skoðunarstofur fyrir ökutæki, ökurita, skip, raforkuvirki, leiksvæði, lyftur, markaðseftirlit og byggingariðnað. Á árinu 2019 bárust tvær umsóknir um faggildingu, tvær nýjar faggildingar voru veittar og tvær faggildingar voru felldar niður. Faggildingarsvið var á árinu 2019 endanlega aðgreint fjárhagslega frá annarri starfsemi Hugverkastofunnar með sitt eigið fjárlaganúmer og kennitölu og skilar nú eigin ársreikningi. Hefur sjálfstæði sviðsins nú styrkst til muna. Starfsmenn faggildingarsviðs hafa undanfarið unnið að því að aðlaga starfsemi faggildingarsviðs betur að þeim kröfum sem til hennar eru gerðar. Gengið er út frá að ljúka stórum þætti í aðlögunarvinnunni á fyrstu mánuðum nýs árs og stefnir sviðið að því að sækja um svokallað jafningjamat til EA á fyrri hluta ársins 2020 en tilgangur jafningjamats er meðal annars að tryggja samræmingu á faggildingarstarfi innan Evrópu.

Mikill árangur hefur náðst við að styrkja innviði faggildingar á árinu og framundan eru krefjandi áskoranir í faggildingarstarfinu á Íslandi.

Tölfræði

Hugverkaskráningar í gildi á Íslandi í lok 2019

Vörumerki
Einkaleyfi
Hönnun

Skráð hugverk
í lok árs 2019

60.500

Þar af 7.500 í eigu
íslenskra aðila

8.400

ar af 85 í eigu
íslenska aðila

960

Þar af 135 í eigu
íslenskra aðila

Árið 2019
(Umsóknir)

4.124

1.565

98

Árið 2019
(Veitt réttindi)

2.776

1.511

97

Fjöldi umsókna

Umsóknum íslenskra aðila um skráningu hugverka hér á landi fækkaði nokkuð árið 2019 miðað við árið á undan.

Vörumerkjaumsóknum íslenskra aðila fækkaði um 26% milli ára.
Á sama tíma fjölgaði vörumerkjaumsóknum erlendra aðila um 2%.
Einkaleyfaumsóknum fækkaði nokkuð á milli ára.
Evrópskum einkaleyfum sem tóku gildi hér á landi fjölgaði lítillega.

Vörumerki

Þegar litið er til vörumerkja var töluverð fækkun á umsóknum frá íslenskum aðilum á árinu 2019. Hugverkastofunni bárust 639 vörumerkjaumsóknir frá íslenskum aðilum, sem er 26% fækkun miðað við árið 2018, en hafa verður í huga að árið 2018 var algjört metár hvað varðar fjölda vörumerkjaumsókna frá innlendum aðilum. Erfitt er að meta ástæður fyrir fækkuninni, en vörumerkjaumsóknir gefa oft vísbendingar um sveiflur og umsvif í viðskiptalífinu. Þessar tölur gætu því verið merki um að íslensk fyrirtæki hafi haldið að sér höndum í fjárfestingum og nýsköpun á árinu 2019.

Á sama tíma fjölgaði vörumerkjaumsóknum erlendra aðila hér á landi. Á árinu 2019 bárust Hugverkastofunni samtals 3.405 vörumerkjaumsóknir frá erlendum aðilum samanborið við 3.337 umsóknir á árinu 2018, sem er fjölgun um 2%.

Einkaleyfi

Einkaleyfaumsóknum sem lagðar voru inn hjá Hugverkastofunni fækkaði lítillega milli ára eftir metár 2018. Samtals voru lagðar inn 62 einkaleyfaumsóknir árið 2019 samanborið við 66 umsóknir árið 2018. Umsóknum íslenskra aðila fækkaði úr 57 umsóknum í 46, á meðan umsóknum erlendra aðila fjölgaði úr 9 í 16.

Þá var fjöldi evrópskra einkaleyfa sem staðfest voru hér á landi árið 2019 mjög sambærilegur við fyrra ár. Staðfestum einkaleyfum hér á landi sem koma í gegnum Evrópsku einkaleyfastofuna (EPO) hefur fjölgað mikið frá því Ísland gerðist aðili að EPO árið 2004 og eru þau nú langstærstur hluti einkaleyfa sem eru í gildi hér á landi.

Hönnun

Fjöldi umsókna um skráningu hönnunar stóð í stað milli ára (15).

Fjöldi skráninga

Hugverkaskráningum íslenskra aðila hér á landi fækkaði árið 2019 miðað við árið á undan samkvæmt nýrri tölfræði Hugverkastofunnar.

Heildarfjöldi vörumerkjaskráninga stóð nánast í stað milli ára.
Skráningar vörumerkja  erlendra aðila hér á landi voru  6,1% fleiri árið 2019 en árið 2018.
Heildarfjöldi veittra einkaleyfa hér á landi stóð nánast í stað á milli ára.
Evrópskum einkaleyfum sem tóku gildi hér á landi fjölgaði lítillega.

Vörumerki

Þegar litið er til vörumerkja þá stóð heildarfjöldi vörumerkjaskráninga árið 2019 nánast í stað miðað við árið á undan. 2.728 vörumerki voru skráð hér á landi árið 2018 en 2.709 vörumerki árið 2019. Vörumerkjaskráningum erlendra aðila fjölgaði um 6,1% árið 2019 miðað við árið á undan en 2.297 vörumerki erlendra aðila voru skráð hér á landi árið 2019 samanborið við 2.165 vörumerki árið 2018. Á sama tíma fækkaði íslenskum skráningum um 26,8%, úr 563 skráningum árið 2018 í 412 skráningar árið 2019.

Einkaleyfi

Heildarfjöldi veittra einkaleyfa hér á landi stóð nánast í stað árið 2019 miðað við árið á undan. Samtals voru 1.498 einkaleyfi veitt hér á landi árið 2019 miðað við 1.499 einkaleyfi árið 2018.

Fjöldi veittra íslenskra landsbundinna einkaleyfa stóð í stað og voru þau 6 talsins árið 2019 en veittum erlendum landsbundnum einkaleyfum fækkaði úr 10 í 3 milli ára.

Þá var fjöldi evrópskra einkaleyfa sem voru staðfest hér á landi árið 2019 mjög sambærilegur við fyrra ár. Fjöldi staðfestra einkaleyfa hér á landi sem koma í gegnum Evrópsku einkaleyfastofuna (EPO) hefur aukist mikið frá því Ísland gerðist aðili að EPO árið 2004 og er nú langstærstur hluti einkaleyfa sem eru í gildi hér á landi.

Hönnun

Fjöldi íslenskra hönnunarskráninga fjölgaði lítillega milli ára, voru 11 árið 2019 en voru 10 árið 2018. Á sama tíma fækkaði landsbundnum hönnunarskráningum erlendra aðila úr 6 í 3.

Önnur tölfræði

Mannauður og rekstur

Lykiltölur úr rekstri 2019

Rekstur Hugverkastofunnar er um margt frábrugðinn rekstri annarra ríkisstofnana. Reksturinn er fjármagnaður með þjónustugjöldum frá þeim sem kosið hafa að vernda hugverk sín hér á landi, bæði innlendir og erlendir aðilar. Umsvif stofnunarinnar ráðast þannig af fjölda umsókna og erinda sem koma til meðferðar hjá stofnuninni hverju sinni. Ýmsir utanaðkomandi þættir geta svo haft áhrif á fjölda umsókna, svo sem gengisþróun og aðstæður í efnahagsmálum hér á landi og erlendis.  

Rekstrarform Hugverkastofunnar er A-hluta form og er fjárheimild stofnunarinnar ákvörðuð á fjárlögum hvers árs án þess að til komi framlag úr ríkissjóði nema að því leyti sem varðar starfsemi faggildingarsviðs.
Hvað rekstur faggildingarsviðs varðar þá er kveðið á um það í 3. gr. laga nr. 24/2006 um faggildingu o.fl. að faggildingarsvið skuli vera fjárhagslega aðgreint frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Árið 2019 var fyrsta árið sem faggildingarsvið starfaði eftir sérstöku fjárlaganúmeri. Sérstakt fjárlaganúmer faggildingarsviðs gerir það að verkum að fjárheimild sviðsins er skilgreind sérstaklega í fjárlögum án þess að vera hluti af heildarfjárheimild stofnunarinnar. Gefnir eru út tveir ársreikningar, einn fyrir Hugverkastofuna og annar fyrir starfsemi faggildingarsviðs. Samhliða þessum breytingum er unnið að gerð þjónustusamnings þar sem áætlað er að faggildingarsvið greiði hlut í sameiginlegum rekstri stofnunarinnar.

Rekstur Hugverkastofunnar

Heilt yfir gekk rekstur Hugverkastofunnar vel á árinu. Fjárheimild stofnunarinnar var 448,6 m.kr. en reksturinn er með öllu fjármagnaður með þjónustugjöldum. Rekstrartekjur voru nokkuð hærri en rekstraráætlun gerði ráð fyrir og námu alls 468,9 m.kr. Tekjurnar skiptust þannig að mestar voru tekjur vegna vörumerkja eða 65,5% af heildartekjum, tekjur vegna einkaleyfa voru 34,3%, og tekjur vegna hönnunar 0,2%. Aðrar tekjur Hugverkastofunnar voru 11 m.kr. sem skýrast af endurgreiðslum frá alþjóðastofnunum vegna ferðakostnaðar og útlögðum kostnaði vegna samstarfsverkefna. Samtals voru tekjur stofnunarinnar 479,9 m.kr.
Útgjöld voru nokkuð hærri en gert var ráð fyrir sem skýrist einkum af kostnaði í tengslum við nafnbreytingu stofnunarinnar, vinnu við nýja heimasíðu, kostnaði vegna þróunar á nýjum gagnagrunni fyrir einkaleyfi og hönnun ásamt þróun á rafrænum umsóknarleiðum. Heildargjöld námu 491,7 m.kr. og var stærsti einstaki útgjaldaliðurinn launakostnaður eða 73%.

Rekstrartekjur:

468.9 milljónir króna

Sértekjur:

11 milljónir króna

Rekstrarkostnaður:

491,7 milljónir króna

Rekstur faggildingarsviðs

Fjárheimild faggildingarsviðs var 50,8 m.kr. fyrir árið 2019. Tekjur faggildingarsviðs fyrir árið 2019 voru í samræmi við rekstraráætlun og námu alls 48,5 m.kr., 33,3 m.kr. var framlag ríkissjóðs og 15,2 m.kr. aðrar tekjur. Heildarútgjöld faggildingarsviðs námu 41,5 m.kr. og stærsti einstaki útgjaldaliðurinn var launakostnaður, 62,3%.

Starfsmenn

36

manns

Meðalstarfsaldur

9

ár

Meðalaldur

42

ára

Starfsfólk Hugverkastofunnar

Eitt af meginmarkmiðum Hugverkastofunnar er að vera eftirsóknarverður vinnustaður þar sem starfsfólk sýnir hvert öðru virðingu, deilir og viðheldur þekkingu sinni ogveitir viðskiptavinum faglega og trausta þjónustu. Stofnunin hefur á að skipa fjölbreyttum og öflugum hópi starfsmanna sem leggur sig fram um að gera góðan vinnustað betri með jákvæðni og góðum samskiptum. Meðal þess sem Hugverkastofan gerir til að viðhalda góðu starfsumhverfi er að leggja fyrir starfsfólk reglulegar árangursmælingar þar sem könnuð eru viðhorf starfsmanna til mismunandi þátta eins og starfsánægju, sjálfstæðis til ákvarðanatöku, stuðnings frá stjórnendum og þjálfunar og þróunar. Niðurstöður þessara kannana eru mikilvægt tæki fyrir stjórnendur þar sem í þeim felst regluleg endurgjöf frá starfsmönnum á störf þeirra en þær eru ekki síður mikilvægar.
Í lok ársins 2019 var starfsmannafjöldi Hugverkastofunnar 38. Þar af voru fjórir í leyfi vegna fæðingarorlofs og náms. Þá starfaði einn starfsmaður Hugverkastofunnar hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) sem sérfræðingur sem lánaður er til starfa. Það er í fyrsta skiptið sem starfsmaður stofnunarinnar tekur að sér slíkt verkefni.
Á hugverkasviði voru starfsmenn 19 talsins auk sviðsstjóra en á rekstrarsviði 12 talsins, auk sviðsstjóra. Á sviði faggildingar störfuðu tveir. Stöðugildi í lok árs 2019 voru 34,7.