Pistlar

4
/9

Hugverk í heimsfaraldri

Dagný Fjóla Jóhannsdóttir

Lögfræðingur og landssérfræðingur sem lánaður er til starfa (e. seconded national expert, SNE) hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) í Alicante.

Það má með sanni segja að ein eftirsóttasta og umtalaðasta varan í heiminum um þessar mundir sé bóluefni við kórónuveirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum.

Þróun bóluefnis tekur alla jafna um áratug, en árið 2020 tókst vísindamönnum engu að síður að þróa og framleiða bóluefni sem teljast hafa góða virkni gegn veirunni sem valdið hefur heimsfaraldri undanfarið. Frá því að fyrsta manneskjan greindist með Covid-19 á Íslandi liðu ekki nema um tíu mánuðir þar til fyrsta manneskjan var bólusett gegn sjúkdómnum hér á landi.


Sú hraða þróun sem átt hefur sér stað varðandi bóluefni við Covid-19 verður að telja stórkostlegt afrek vísindamanna og lyfjafyrirtækja. Um tvöhundruð bóluefni gegn sjúkdómnum eru í þróun og þegar þetta er skrifað eru þrjú þeirra komin með markaðsleyfi í Evrópu.


En hvaða hlutverk hafa hugverkaréttindi í þessu samhengi? Hugverk eru óáþreifanleg verðmæti sem oft skapa grunninn að velgengni fyrirtækja, en þau eru iðulega talin meðal verðmætustu eigna fyrirtækja og ekki síst þeirra sem vinna að nýsköpun, rannsóknum og þróun. Með hugverkaréttindum má segja að hugmyndum sé gefið virði, enda er sú lagalega vernd sem til dæmis einkaleyfi veitir til þess fallin að veita eiganda einkarétt á hagnýtingu uppfinningarinnar á meðan einkaleyfið er í gildi.
Frá upphafi heimsfaraldursins hafa þó einhverjar raddir verið uppi um það hvort hugverk og þá helst einkaleyfavernd valdi því að hægara gangi að þróa og framleiða bóluefnin en ella.  


Nú nýlega hefur Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hvatt til þess að einkaleyfi á bóluefnum við Covid-19 verði afnumin svo hægt verði að framleiða og selja ódýrari eftirgerðir af þeim. Nefndi hann þó að þrátt fyrir að það yrði gert yrðu þeim fyrirtækjum sem þróuðu bóluefnin veittar sérstakar greiðslur. Ekki hefur hann þó tjáð sig frekar um það hvernig slíkar greiðslur yrðu útfærðar, en skemmst er frá því að segja að bæði lyfjafyrirtæki og stjórnvöld í Bandaríkjunum og í Evrópu hafa lagst gegn þessum hugmyndum Ghebreyesus.


Sú lagalega vernd sem fyrirtæki öðlast með einkaleyfi getur skipt sköpum þegar ákvörðun er tekin um að leggja skuli í fjárfestingar í rannsóknum og þróun, sem hæglega geta hlaupið á hundruðum milljarða, án nokkurrar tryggingar um að endanlegu markmiði verði náð. Hvatinn sem einkaleyfakerfið myndar leikur þarna lykilhlutverk, þar sem einkaleyfishafi getur fengið 20 ára einkarétt á hagnýtingu uppfinningarinnar. Samstarf vísindamanna og lyfjafyrirtækja um allan heim hefur verið gríðarlega mikið í yfirstandandi faraldri, þar sem eitt þekktasta dæmið er líklega samstarf bandaríska lyfjarisans Pfizer og þýska líftæknifyrirtækisins BioNTech. Þessi fyrirtæki og önnur sem þróað hafa bóluefni hafa að auki gert framleiðslusamninga við fyrirtæki um allan heim um framleiðslu bóluefnanna. Samstarf vísindamanna og fyrirtækja um allan heim hefur spilað lykilhlutverk bæði við þróun og framleiðslu bóluefnanna, en grundvöllur slíks samstarfs er m.a. það að gætt sé að réttaröryggi aðilanna, m.a. með skráðum hugverkum og nytjaleyfissamningum.


Það má velta því fyrir sér hvaða fordæmi það myndi setja fyrir framtíðarþróun nýrra bóluefna í samskonar krísum ef einkaleyfi yrðu afnumin. Væri hvatinn til staðar fyrir færustu vísindamenn heims og stærstu og öflugustu lyfjafyrirtækin, eða önnur tæknifyrirtæki, til þess að leggja stóran hluta af starfsemi sinni til hliðar og jafnvel setja stóran hluta fjárfestinga í þróun á lausn, ef ekki væri með hugverkaréttindum hægt að tryggja eignarhaldið? Myndu fyrirtæki starfa saman í sama mæli?


Lykillinn að enn hraðari þróun eða framleiðslu bóluefna er síður en svo að einkaleyfin verði afnumin. Þvert á móti hefur einkaleyfakerfið stutt við þá hröðu þróun og framleiðslu sem raunin hefur verið á. Hlutverk yfirvalda ætti því áfram að vera það að styðja við fyrirtækin sem þróa og framleiða bóluefni, m.a. með því að tryggja að ekki komi upp flöskuhálsar í ferlinu, til að mynda í tengslum við regluverk.

Fyrri

Alþjóðahugverkadagurinn 2020: Græn hugverk eru auðlind

Næst

Tækifæri og verðmæti í verndun hugverka