Ávarp forstjóra

Hugverkastofan í 30 ár



Þegar litið er um öxl yfir sögu Einkaleyfastofunnar og Hugverkastofunnar má sjá að íslenskur iðnaður, samfélag og viðskiptalíf hefur gerbreyst. Nýsköpun skiptir nú lykilmáli í því hvernig við lifum, störfum og sköpum verðmæti og störf. Hlutverk hugverka og hugverkaréttinda í þessu ferli er skýrt: Hugverk eru grunnurinn að því hvernig hugmynd verður að veruleika. Með hugverkum skapast virði sem nauðsynlegt er að verja og því eru vernduð hugverk í raun gjaldmiðill árangursríkrar nýsköpunar.

Um þessar mundir stendur heimurinn á tímamótum. Loftslagsbreytingar ógna lífríki og búsetuskilyrðum víða um heim og síðustu tvö ár hafa sýnt okkur hvað heimurinn er í raun óútreiknanlegur. Næstu ár munu því skipta höfuðmáli þegar kemur að því að takast á við þessar áskoranir. Undirstaða þess að við verðum sjálfbærari, snjallari og umhverfisvænni er nýsköpun og nýjar tæknilausnir. Þema afmælisráðstefnu okkar í Hörpu þann 4. nóvember síðastliðinn um tengsl hugverkaréttinda, nýsköpunar og sjálfbærni var því mjög vel við hæfi. Þar fengum við að sjá sögur nokkurra af helstu nýsköpunarfyrirtækjum Íslands á þessu sviði og hvernig þau hafa markvisst notað hugverkavernd til þess að koma hugmyndum sínum í farveg og gera þær að hagnýtanlegum og eftirsóttum lausnum. Á Hugverkastofunni höfum við stigið stór skref á liðnum árum í átt að aukinni sjálfbærni í starfseminni. Í uppfærðri stefnu sem birt var á árinu og gildir til ársloka 2022 er einn af áhersluþáttunum að stuðla að stöndugum og umhverfisvænum rekstri. Við höfum nú þegar lokið innleiðingu á þriðja Græna skrefi Umhverfisstofnunar og næstu eru í farvegi. Í loftslagsstefnunni okkar kemur auk þess fram að við áætlum að draga úr losun á koltvísýringi um 40% fyrir árið 2030. Með þessu viljum við ekki aðeins hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið heldur einnig vera fyrirmynd alþjóðlegra samstarfsaðila.

Ég er stolt af vinnu okkar á árinu sem miðar að því að gera vinnustaðinn okkar grænni og dýnamískari. Breytt stefna og nýtt skipulag, aukin áhersla á teymisvinnu og jafnlaunavottun eru dæmi um aðgerðir sem miða að því að auka starfsánægju, afköst og samstarf innan stofnunarinnar. Við höfum einnig nýtt sérstakar aðstæður í kjölfar COVID-19 til að endurhugsa og bæta þjónustuna okkar. Eitt helsta áhersluverkefnið í uppfærðri stefnu er stafræn Hugverkastofa sem miðar að því að bæta rafræna þjónustu og auka skilvirkni innanhúss. Þetta felur í sér gagngera endurskoðun á ytri þjónustu okkar og umsóknarferlum og þróun nýrrar heimasíðu en einnig þróun innanhúss sem miðar að því að straumlínulaga og stafvæða verkferla. Markmið okkar er skýrt: Að gera Hugverkastofuna að leiðandi stofnun í gæðum á þjónustu við fyrirtæki og aðila í nýsköpun.
Aftur heim
Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri