Hugverk og hugverkaréttindi

7
/10

Brexit og Ísland: Hvað breytist í hugverkaréttindamálum við útgöngu Breta úr EES?

Jón Gunnarsson 

Samskiptastjóri

Samningur vegna útgöngu Bretlands úr Evrópska efnahagssvæðinu var undirritaður af utanríkisráðherrum Noregs, Liechtenstein og Íslands ásamt útgöngumálaráðherra Bretlands þann 28. janúar 2020. Samningurinn leysir úr viðeigandi útgönguskilmálum með sambærilegum hætti og gert er í útgöngusamningi Bretlands og ESB. Þar á meðal er fjallað um ýmis mál á sviði hugverkaréttinda.

Fyrst um sinn verða engar breytingar á sambandi Íslands við Bretland, þar sem aðlögunartímabil tekur gildi til loka 2020.

Meðan á aðlögunartímabilinu stendur munu Evrópuvörumerki (e. European Union trade mark - EUTM) enn vera í gildi í Bretlandi en fjölmörg íslensk fyrirtæki eiga slík merki skráð.

Að loknu aðlögunartímabilinu mun u.þ.b. 1,4 milljónum Evrópuvörumerkja verða breytt í sambærilegar breskar vörumerkjaskráningar. Þessar breytingar taka því gildi 1. janúar 2021. Útganga Breta mun ekki hafa áhrif á vörumerki íslenskra fyrirtækja sem eru skráð beint hjá Bresku hugverkastofunni (UKIPO).  

Það sama á við um skráða ESB hönnun í eigu íslenskra fyrirtækja (e. Registered Community Design – RCD). Slíkar skráningar halda gildi sínu á aðlögunartímabilinu, en þann 1. janúar 2021 mun þeim verða breytt í sambærilegar breskar hönnunarskráningar.

Ekki er fyrirséð að útganga Breta muni hafa áhrif á skráningu og gildi einkaleyfa íslenskra fyrirtækja í Bretlandi þar sem útgangan hefur ekki áhrif á Evrópska einkaleyfasamninginn sem bæði Ísland og Bretar eru aðilar að.  

Þá var í samningi EES-EFTA ríkjanna ennfremur samið um gagnkvæma vernd afurðarheita á aðlögunartímabilinu, vernd gagnagrunna og tæmingu vörumerkjaréttar.

Hugverkaréttindi verða mikilvægur hluti af samningaviðræðum milli Bretlands og Evrópusambandsins, sem munu eiga sér stað á aðlögunartímabili sem nú er að hefjast. Samhliða þessum viðræðum munu Ísland og Bretland eiga viðræður um framtíðarsamskipti ríkjanna, þ. á m. á sviði hugverkaréttinda.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er nú verið að skoða möguleika á samstarfi EFTA-ríkjanna innan EES þar sem það á við og samræmist hagsmunum ríkjanna. Mikill vilji ríkir í Bretlandi og á Íslandi til að tryggja áfram náin tengsl og hagstæð viðskipti ríkjanna.

Í hnotskurn:

  • Evrópuvörumerki íslenskra aðila munu vera í gildi í Bretlandi meðan á aðlögunartímabilinu stendur, til 31. desember 2020. Það sama á við um skráða ESB hönnun í eigu íslenskra aðila.
  • Að aðlögunartímabilinu loknu mun Evrópuvörumerkjum verða breytt í sambærilegar breskar vörumerkjaskráningar. Þessi breyting mun taka gildi 1. janúar 2021. Það sama á við um skráða ESB hönnun sem verður breytt í sambærilegar breskar hönnunarskráningar.
  • Útganga Breta mun ekki hafa áhrif á skráningu og gildi einkaleyfa íslenskra aðila sem eru í gildi í Bretlandi.

Fyrri

Hugmyndir í heimsfaraldri?

Næst

Óáþreifanleg verðmæti, áþreifanlegar tekjur