Hugverkastofan tók þátt í Framadögum AISEC í Háskólanum í Reykjavík í janúar. Framadögum er oft lýst sem stærsta atvinnuviðtali landsins, enda leggja árlega mörg þúsund manns á öllum aldri leið sína í Vatnsmýrina í leit að tækifærum og ráðgjöf, en markmið Framadaga er að gefa háskólanemum tækifæri til að kynna sér fyrirtæki og fjölbreytta möguleika á sumarstörfum, framtíðarstörfum eða verkefnavinnu.
Í febrúar tók Hugverkastofan þátt í UTmessunni í þriðja sinn, en messan er einn stærsti viðburður ársins í upplýsingatæknigeiranum á Íslandi.
Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, var í apríl kosin varaformaður framkvæmdaráðs Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO).
Hugverkastofan var í 3. sæti í flokki meðalstórra stofnana í könnuninni Stofnun ársins 2019. Niðurstöður úr könnuninni voru kynntar 15. maí sl. á Hilton Reykjavík Nordica að viðstöddu fjölmenni.
Ísland fór upp um þrjú sæti á nýsköpunarvísitölu Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO Global Innovation Index, GII) fyrir árið 2019. Ísland er nú í 20. sæti vísitölunnar en féll um tíu sæti á vísitölunni í fyrra eftir að hafa verið í 13. sæti árin tvö á undan.
Í júní voru uppfinningamönnum og -konum frá Austurríki, Frakklandi, Japan, Hollandi og Spáni veitt verðlaun European Inventor Award 2019 við hátíðlega athöfn í Vínarborg. Vinningshafarnir fengu viðurkenningu fyrir framfarir á sviði endurvinnslu á plasti, greiningar á krabbameinum, endurhlaðanlegrar rafhlöðutækni, botnhúðunar og DNA greiningar.
Vinnuhópur EFTA um hugverkarétt fundaði í Brussel í júní. Þetta var í síðasta sinn sem vinnuhópurinn fundaði undir formennsku Borghildar Erlingsdóttur, forstjóra Hugverkastofunnar, en hún hafði verið formaður vinnuhópsins síðan 2013.
Nýsköpunarhraðallinn Startup Reykjavík fór fram sumarið 2019. Líkt og síðustu ár var Hugverkastofan þátttakendum innan handar í fræðslu og ráðgjöf.
Í september tók Hugverkastofan þátt í vinnustofu með Nýsköpunarmiðstöð Íslands um verndun hugverka í Kína. Vinnustofan var ætluð frumkvöðlum og fyrirtækjum í nýsköpun sem hyggja á skölun erlendis.
Dufl bar sigur úr býtum í frumkvöðlakeppninni Gullegginu 2019 í október með hugmynd að nýrri tegund áreiðanlegs staðsetningarbúnaðar á sjó. Sigurvegarinn var tilkynntur í lokahófi keppninnar í Háskólanum í Reykjavík þann 26. október og átti Hugverkastofan sæti í lokadómnefnd.
Árið 2018 var metfjöldi umsókna um einkaleyfi, vörumerki og hönnun á heimsvísu. Líkt og þróunin hefur verið síðustu ár og áratugi heldur hlutur Asíu í fjölda umsókna áfram að aukast, en þaðan komu tveir þriðju einkaleyfaumsókna. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðahugverkastofunnar (WIPO) sem kom út á árinu 2019, “World Intellectual Property Indicators 2019”.
Fjöldi íslenskra umsókna um evrópsk einkaleyfi jókst um 51,5% árið 2019 samanborið við árið á undan. Íslenskir aðilar lögðu fram 50 einkaleyfaumsóknir hjá EPO árið 2019, en þær voru 33 árið 2018.
Þetta kemur fram í nýrri tölfræði Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO). Evrópsku einkaleyfastofunni bárust 181.000 einkaleyfaumsóknir á árinu 2019, sem er metfjöldi og aukning um 4% miðað við árið 2018.
Hugverkastofan og málefni hugverkaréttinda voru sýnilegri í fjölmiðlum á árinu 2019 en undanfarin ár.