Árið    2019

Framadagar

Hugverkastofan tók þátt í Framadögum AISEC í Háskólanum í Reykjavík í janúar. Framadögum er oft lýst sem stærsta atvinnuviðtali landsins, enda leggja árlega mörg þúsund manns á öllum aldri leið sína í Vatnsmýrina í leit að tækifærum og ráðgjöf, en markmið Framadaga er að gefa háskólanemum tækifæri til að kynna sér fyrirtæki og fjölbreytta möguleika á sumarstörfum, framtíðarstörfum eða verkefnavinnu.

Hugverkastofan var sem fyrr á vettvangi, enda er þekking á hugverkaréttindum mikill kostur í verkfærakistu atvinnuleitenda og nauðsynleg öllum sem vilja starfa í heimi þar sem hugverk og óáþreifanleg verðmæti gegna æ stærra hlutverki í atvinnulífinu. Einnig kynnti Hugverkastofan möguleika á starfsnámi hjá Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO) og Alþjóðahugverkastofunni (WIPO).
Hugverkstofan hefur tekið þátt í Framadögum undanfarin ár.
Starfsfólk Hugverkastofunnar á UTmessunni 2019

UTMessan

Í febrúar tók Hugverkastofan þátt í UTmessunni í þriðja sinn, en messan er einn stærsti viðburður ársins í upplýsingatæknigeiranum á Íslandi.

Öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins mæta þar til leiks með einum eða öðrum hætti og hvetja fólk til að kynna sér það nýjasta í heimi upplýsingatækni. Ráðstefnan er frábært tækifæri til að ná til fyrirtækja í upplýsingatækniiðnaðinum, en þau byggja að langmestu leyti á óáþreifanlegum verðmætum. Á bás Hugverkastofunnar gátu gestir kynnt sér mikilvægi hugverkaréttinda í upplýsingatæknigeiranum og fræðst um hvaða leiðir eru færar í að vernda hugverk í hugbúnaði.

Borghildur Erlingsdóttir kjörin varaformaður framkvæmdarráðs Evrópsku einkaleyfastofunnar

Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, var í apríl kosin varaformaður framkvæmdaráðs Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO).

Varaformaður situr í stjórn framkvæmdarráðs EPO, en þar eru rædd öll stjórnunartengd mál EPO og ákvarðanir teknar í tengslum við það. Stjórn framkvæmdaráðsins vinnur einnig náið með stjórnendum EPO og fundar reglulega með þeim. Þá er það hlutverk varaformanns að stýra fundum framkvæmdaráðs í fjarveru formanns.

EPO stendur að mörgu leyti á tímamótum. Fjöldi einkaleyfaumsókna hefur aukist gríðarlega hjá stofnuninni sem og á heimsvísu á síðustu árum. EPO hefur einnig þurft að aðlagast örum tæknibreytingum vegna fjórðu iðnbyltingarinnar, sem hefur bæði haft áhrif á tæknisvið einkaleyfaumsókna og einnig á það hvernig tækni er notuð við að meðhöndla og rannsaka einkaleyfaumsóknir. Nýr forseti stofnunarinnar, Antonio Campinos, tók við á síðasta ári, en hann hefur boðað miklar breytingar til þess að takast á við þessar áskoranir. Að sögn Borghildar verður ánægjulegt að stuðla að áhrifaríkri þátttöku Íslands meðal aðildarríkja EPO í þeim krefjandi verkefnum sem eru framundan.
Evrópska einkaleyfastofan er ein stærsta alþjóðastofnun í Evrópu, með rúmlega sjö þúsund starfsmenn frá 35 löndum, en höfuðstöðvar hennar eru í München í Þýskalandi. Stofnunin er ein virtasta stofnun heims á sviði hugverkaréttinda. Ísland gerðist aðili að EPO árið 2004. Síðan þá hefur fjöldi staðfestra einkaleyfa hér á landi sem koma í gegnum EPO aukist gríðarlega. Árið 2018 tóku rúmlega 1.400 staðfest evrópsk einkaleyfi gildi hér á landi og eru þau jafnframt langstærstur hluti þeirra einkaleyfa sem eru í gildi hér á landi.
Fundarsalur framkvæmdarráðs EPO í Munchen.
Mynd: Evrópska einkaleyfastofan
Frá verðlaunaafhendingu Stofnunar ársins 2019. Mynd: Sameyki

Hugverkastofan í þriðja sæti í Stofnun ársins 2019

Hugverkastofan var í 3. sæti í flokki meðalstórra stofnana í könnuninni Stofnun ársins 2019. Niðurstöður úr könnuninni voru kynntar 15. maí sl. á Hilton Reykjavík Nordica að viðstöddu fjölmenni.

Hugverkastofan var í þriðja sæti í flokki meðalstórra stofnana (20-49 starfsmenn) og í því fjórða á heildina litið. Hugverkastofan hlýtur jafnframt titilinn Fyrirmyndarstofnun ársins, líkt og undanfarin ár, en Hugverkastofan hefur verið í efstu þremur sætunum síðastliðin sjö ár og síðustu tvö í því þriðja. Í flokki meðalstórra stofnana, og einnig á heildina litið, er Menntaskólinn á Tröllaskaga í 1. sæti og Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum í 2. sæti.

Starfsfólk 162 stofnana, alls 10.845 svarendur, tóku þátt í könnuninni, en Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og fjölmargra stofnana. Könnunin er gerð meðal starfsfólks ríkis og sveitarfélaga og er spurt um stjórnun, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í vinnu, sjálfstæði í starfi, jafnrétti, ánægju og stolt.

Ísland upp um þrjú sæti á nýsköpunarvísitölu WIPO

Ísland fór upp um þrjú sæti á nýsköpunarvísitölu Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO Global Innovation Index, GII) fyrir árið 2019. Ísland er nú í 20. sæti vísitölunnar en féll um tíu sæti á vísitölunni í fyrra eftir að hafa verið í 13. sæti árin tvö á undan.

Sviss er í efsta sæti vísitölunnar, líkt og í fyrra, en þar á eftir koma Svíþjóð, Bandaríkin, Holland og Bretland.

Í skýrslu GII fyrir árið 2019 var sjónum sérstaklega beint að landslaginu í nýsköpun læknavísinda og því hvernig nýsköpun á þessu sviði mótar framtíð heilsugæslu og möguleg áhrif á hagvöxt og verðmætasköpun um allan heim.

Vísitalan tekur saman og raðar nýsköpunargetu og -árangri aðildarríkja stofnunarinnar, en meðal þess sem er skoðað er árangur ríkja í hugverkagerð og -vernd ásamt fjárfestingu í nýsköpun og stjórnmálaumhverfi. Hægt er að skoða skýrslu GII 2019 í heild sinni og helstu niðurstöður með því að smella hér. Hægt er að sjá heildarárangur Íslands með því að smella hér.
Ísland var í 20. sæti nýsköpunarvísitölu WIPO árið 2019.

European Inventor Award 2019

Í júní voru uppfinningamönnum og -konum frá Austurríki, Frakklandi, Japan, Hollandi og Spáni veitt verðlaun European Inventor Award 2019 við hátíðlega athöfn í Vínarborg. Vinningshafarnir fengu viðurkenningu fyrir framfarir á sviði endurvinnslu á plasti, greiningar á krabbameinum, endurhlaðanlegrar rafhlöðutækni, botnhúðunar og DNA greiningar.

Austurrísku uppfinningamennirnir Klaus Feightingar og Manfred Hackl sigruðu í flokki iðnaðar. Mynd: EPO
Franski ónæmisfræðingurinn Jérôme Galon sigraði í flokki rannsókna.
Mynd: EPO
Japanski vísindamaðurinn Akira Yoshino sigraði í flokki uppfinningamanna utan EPO-landa. Mynd: EPO
Hollenski uppfinningamaðurinn Rik Breur sigraði í flokki lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Mynd: EPO
Spænska vísindakonan Margarita Salas Falgueras hlaut heiðursverðlaun European Inventor Award 2019. Mynd: EPO
Verðlaunin voru afhent í fjórtánda sinn, en þau eru árlega veitt hópi fólks sem stuðlað hefur að félags- og tækniframförum með uppfinningum sínum. Verðlaunahafar ársins í flokki iðnaðar voru austurrísku uppfinningamennirnir Klaus Feightingar og Manfred Hackl, sem þróuðu tækni sem hefur umbylt endurvinnslu á plasti. Með nýju aðferðinni er hægt að breyta margskonar tegundum af plasti í hágæða plastköggla sem hægt er að nýta í nýjar vörur.

Í flokki rannsókna sigraði franski ónæmisfræðingurinn Jérôme Galon fyrir Immunoscore® sem metur hættu á að krabbamein taki sig upp á nýju. Greiningartólið notar stafrænar myndir af æxlissýnum og sérþróaðan hugbúnað til að meta ónæmisviðbrögð sjúklinga. Uppfinning Galon er þegar í notkun víða um heim.

Í flokki uppfinningamanna utan EPO-landa sigraði japanski vísindamaðurinn Akira Yoshino fyrir liþín-jóna-rafhlöðuna og þróun hennar. Yoshino er oft nefndur faðir liþín-jóna-rafhlöðunnar (LIB) en í dag knúa slíkar rafhlöður nærri fimm milljarða farsíma, auk fartölva og annarra tækja, að ógleymdum rafbílum. Yoshino hefur unnið að þróun og bættri tækni síðustu áratugi og hlaut í október Nóbelsverðlaun í efnafræði fyrir vinnu sína á þessu sviði.

Í flokki lítilla og meðalstórra fyrirtækja sigraði hollenski uppfinningamaðurinn Rik Breur fyrir nýja tegund botnhúðar sem ætlað er að koma í veg fyrir að gróður myndist á skrokk báts fyrir neðan sjólínu. Nýja húðin byggir á yfirborði ígulkera og kemur í stað botnmálningar sem inniheldur oft hættuleg eiturefni sem eru skaðleg dýralífi sjávar.

Að lokum hlaut spænska vísindakonan Margarita Salas Falgueras heiðursverðlaun fyrir aðferð við mögnun DNA í erfðafræði. Salas fann upp hraðvirkari, einfaldari og áreiðanlegri aðferð við að endurskapa snefilmagn erfðaefnis til þess að hægt sé að greina það. Uppfinning hennar er notuð víða um heim við krabbameins-, réttar- og fornleifarannsóknir.

Vinnuhópur EFTA um hugverkarétt fundar í Brussel

Vinnuhópur EFTA um hugverkarétt fundaði í Brussel í júní. Þetta var í síðasta sinn sem vinnuhópurinn fundaði undir formennsku Borghildar Erlingsdóttur, forstjóra Hugverkastofunnar, en hún hafði verið formaður vinnuhópsins síðan 2013.

Meðal þess sem rætt var á fundinum voru nýjar tilskipanir Evrópusambandsins um höfundarétt , endurskoðun á vörumerkjakerfi Evrópusambandsins og yfirstandandi mat á ESB-löggjöf á hönnunarvernd.

Vinnuhópar og sérfræðingahópar EFTA eru til aðstoðar undirnefndum á ýmsum málefnasviðum og eiga sérfræðingar á viðkomandi sviðum frá EES-EFTA-ríkjunum sæti í þeim. Vinnuhóparnir hafa það verkefni að fara yfir allar lagagerðir ESB sem ætlunin er að taka upp í EES-samninginn. Við formennsku hópsins tók Rán Tryggvadóttir, sérfræðingur á sviði hugverkaréttinda hjá menntamálaráðuneytinu.
Frá fundi vinnuhóps EFTA um hugverkaréttindi í Brussel í júní 2019. Mynd: EFTA
Jón Gunnarsson, samskiptastjóri Hugverkastofunnar, flytur erindi fyrir þátttakendur Startup Reykjavík

Startup Reykjavík 2019

Nýsköpunarhraðallinn Startup Reykjavík fór fram sumarið 2019. Líkt og síðustu ár var Hugverkastofan þátttakendum innan handar í fræðslu og ráðgjöf.

Jón Gunnarsson, samskiptastjóri Hugverkastofunnar, hélt þar kynningu og vinnustofu fyrir þátttakendur um hugverkaréttindi og um það hvað frumkvöðlar þurfa að hafa í huga til að halda utan um verðmæti sem skapast í nýsköpun og hvernig má fá þau til að vaxa og dafna.

Frá árinu 2012 hafa 68 fyrirtæki tekið þátt í Startup Reykjavík og er rúmlega helmingur þeirra enn starfandi. Alls hafa þau fengið um fjóra milljarða íslenskra króna í fjármögnun, þar af er um 65% hlutafé og 35% styrkir.

Viðburður um verndun hugverka í Kína

Í september tók Hugverkastofan þátt í vinnustofu með Nýsköpunarmiðstöð Íslands um verndun hugverka í Kína. Vinnustofan var ætluð frumkvöðlum og fyrirtækjum í nýsköpun sem hyggja á skölun erlendis.

Enterprise Europe Network stóð að skipulagningu viðburðarins en ráðgjafi frá China IPR SME Helpdesk í Brussel kynnti þar hugverkaréttindakerfið í Kína og það sem þarf að hafa í huga þegar stefnt er á Kínamarkað. Jón Gunnarsson, samskiptastjóri Hugverkastofunnar, flutti kynningu á vinnustofunni um hvað fyrirtæki þurfa að gera til að vernda hugverk sín hér á landi og hvernig þau geta lagt grunn fyrir verndun þeirra erlendis, þar á meðal í Kína.

Gulleggið 2019

Dufl bar sigur úr býtum í frumkvöðlakeppninni Gullegginu 2019 í október með hugmynd að nýrri tegund áreiðanlegs staðsetningarbúnaðar á sjó. Sigurvegarinn var tilkynntur í lokahófi keppninnar í Háskólanum í Reykjavík þann 26. október og átti Hugverkastofan sæti í lokadómnefnd.

Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar og Salóme Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, undirrita samstarfssamning um Gulleggið í september 2019.
Hugverkastofan hefur verið samstarfsaðili Gulleggsins síðastliðin þrjú ár.
Dufl, sigurvegarar Gulleggsins 2019. Mynd: Icelandic Startups
Þátttakendur og samstarfsaðilar Gulleggsins 2019.
Mynd: Icelandic Startups
Þetta var í þriðja sinn sem Hugverkastofan var samstarfsaðili Gulleggsins en meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir unga frumkvöðla til að öðlast þjálfun og reynslu í að móta nýjar viðskiptahugmyndir og reka fyrirtæki.

Dufl vann einnig sérverðlaun í flokki Vöru (Product) og hlaut meðal annars að launum samtalsleit einkaleyfa frá Hugverkastofunni. Í flokki Heilsu (Health) vann teymið Örmælir sérverðlaun og hlaut einnig samtalsleit einkaleyfa frá Hugverkastofunni, en hugmynd þeirra er tæki sem mælir mjög lítið vökvamagn snertilaust og er notað við rannsóknir í heilbrigðisvísindum. Í flokki Sjálfbærni og grænna lausna (Green) varð teymi Green Bytes hlutskarpast, fyrir hugbúnað sem byggir á vitvélatækni (e. machine learning) til að minnka matarsóun og auka hagnað veitingastaða.

Í flokki Stafrænna lausna (Digital) var sigurvegarinn Statum, fyrir þróun á gagnvirkum dómsal í sýndarveruleika til þess að búa þolendur kynferðisofbeldis undir að fara fyrir dóm. Loks sigraði VEGAnGERÐIN í vali fólksins, sem fór fram á RÚVnúll, en þeirra framlag var íslenskur grænn próteingjafi fyrir heimili og veitingastaði.

Yfir 150 hugmyndir bárust í keppnina og tíu hugmyndir voru valdar til að keppa til úrslita.

Sigurvegari Gulleggsins hlaut að launum 1,5 milljón króna í peningum og verðlaunagripinn Gulleggið sem  hannaður var af Írisi Indriðadóttur, vöruhönnuði frá Listaháskóla Íslands.

Í september undirrituðu Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar og Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups samstarfssamning um þáttöku Hugverkastofunnar. Samningurinn fól í sér að sérfræðingar Hugverkastofunnar miðluðu þekkingu sinni á viðburðum keppninnar og voru liðum Gulleggsins innan handar við að vernda hugverk sín.

Metfjöldi umsókna um skráningu hugverka á heimsvísu árið 2018

Árið 2018 var metfjöldi umsókna um einkaleyfi, vörumerki og hönnun á heimsvísu. Líkt og þróunin hefur verið síðustu ár og áratugi heldur hlutur Asíu í fjölda umsókna áfram að aukast, en þaðan komu tveir þriðju einkaleyfaumsókna. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðahugverkastofunnar (WIPO) sem kom út á árinu 2019, “World Intellectual Property Indicators 2019”.

Síðustu ár hefur umsóknum um skráningu á hugverkaréttindum fjölgað umtalsvert á heimsvísu. Aðilar í nýsköpun lögðu inn 3,3 milljónir einkaleyfaumsókna á árinu 2018 sem er 5,2% aukning frá árinu 2017, en það er níunda árið í röð sem einkaleyfaumsóknum fjölgar milli ára. Metfjöldi umsókna kom frá Kína, en 1,54 milljónir einkaleyfaumsókna bárust þaðan árið 2018, sem er er 46,4% allra einkaleyfaumsókna í heiminum. Kínverskum umsóknum fjölgaði um 11,6% milli ára, en þær eru svipað margar og samanlagður fjöldi einkaleyfaumsókna frá þeim löndum sem eru í 2. til 11. sæti á listanum.
Hugverkaréttindi á heimsvísu
2017
2018
Aukning á
milli ára
Fjöldi einkaleyfa-
umsókna
3.162.300
3.326.300
5.2%
Fjöldi vörumerkjaumsókna (fjöldi flokka í
umsóknum)
12.395.700
14.321.800
15,5%
Fjöldi
hönnunarumsókna
1.242.100
1.312.600
5,7%
Á árinu var ennfremur sótt um skráningu á 10,9 milljóna vörumerkja í 14,3 milljón flokkum á heimsvísu árið 2018. Umsóknum fjölgaði um 15,5% milli ára, en þetta er einnig í níunda árið í röð sem vörumerkjaumsóknum fjölgar. Kína átti einnig flestar vörumerkjaumsóknir árið 2018, en þaðan komu 7,4 milljónir umsókna árið 2018, sem er 28,3% aukning milli ára. Um 70% allra vörumerkjaumsókna komu frá Asíu, en hlutur Asíu hefur aukist töluvert á síðustu árum, þar sem hann var 36,2% árið 2008. Á sama tíma hefur hlutfall evrópskra vörumerkjaumsókna minnkað úr 38,4% árið 2008 í 15,8% árið 2018.

Talið er að um 49,3 milljónir vörumerkjaskráninga séu nú í gildi í heiminum, sem er 13,8% aukning milli ára.

Árið 2018 voru lagðar fram 1,3 milljónir hönnunarumsókna í heiminum, sem er 5,7% aukning frá árinu á undan. Flestar umsóknir um hönnun komu frá Kína, en þar voru lagðar fram 708.799 hönnunarumsóknir, sem er 54% allra umsókna í heiminum á árinu.

Skýrsluna í heild sinni og helstu tölur er hægt að nálgast hér.

EPO: Aukinn fjöldi evrópskra einkaleyfaumsókna frá Íslandi

Fjöldi íslenskra umsókna um evrópsk einkaleyfi jókst um 51,5% árið 2019 samanborið við árið á undan. Íslenskir aðilar lögðu fram 50 einkaleyfaumsóknir hjá EPO árið 2019, en þær voru 33 árið 2018.

Þetta kemur fram í nýrri tölfræði Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO). Evrópsku einkaleyfastofunni bárust 181.000 einkaleyfaumsóknir á árinu 2019, sem er metfjöldi og aukning um 4% miðað við árið 2018.

Uppruni einkaleyfaumsókna hjá EPO árið 2019
Mikil aukning var á einkaleyfaumsóknum tengdum 5G og gervigreind
Kínverski tæknirisinn Huawei var helsti umsóknaraðili um einkaleyfi hjá EPO árið 2019.
Mikil aukning í umsóknum tengdum 5G og gervigreind
Þegar skoðuð eru tæknisvið einkaleyfaumsóknanna má sjá áhugaverða þróun á sviði stafrænnar tækni sem tengist meðal annars 5G og gervigreind. Mikil aukning var á einkaleyfaumsóknum á sviði stafrænna fjarskipta (+19,6%)  og tölvutækni (+10,2%). Stafræn fjarskipti eru þar með orðinn stærsti flokkurinn og taka það sæti af tækni á heilbrigðissviði, sem hefur verið stærsti flokkurinn frá árinu 2006.
Aukning frá nær öllum heimssvæðum og mikil aukning í Kína
Flestar umsóknir bárust frá Bandaríkjunum (25%), Þýskalandi (15%), Japan (12%), Kína (7%) og Frakklandi (6%). Fjölgun umsókna hjá EPO í ár er að mestu knúin áfram af aukningu frá Kína (+29,2%), Bandaríkjunum (+5,5%) og Suður Kóreu (+14,1%). Umsóknum frá Kína hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum, en á aðeins áratug hefur fjöldi þeirra sexfaldast (12.247 árið 2019 samanborið við 2.061 árið 2010).
Huawei stærsti einstaki umsækjandinn
Fjölgun umsókna á sviði stafrænnar tækni og fjarskipta var einnig sýnileg á lista yfir stærstu einstöku umsækjendurna. Kínverska tæknifyrirtækið Huawei er þar fremst í flokki (3.524 umsóknir), en þar á eftir koma kóresku tæknifyrirtækin Samsung (2.858 umsóknir) og LG (2.817 umsóknir).

Nánari upplýsingar um nýjustu tölur EPO má finna hér.

Ásýnd í fjölmiðlum 2019

Hugverkastofan og málefni hugverkaréttinda voru sýnilegri í fjölmiðlum á árinu 2019 en undanfarin ár.

Munaði þar um aukna umfjöllun um mikilvægi hugverkaréttinda fyrir verðmætasköpun og nýsköpun og einnig fjölgaði fréttum um vörumerkjadeilur og úrskurði Hugverkastofunnar. Umfjöllun um fjölda skráðra hugverka hér á landi var einnig sýnilegri, en skráningum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum.
Aftur heim